“Allir eru að selja”
Ég hef alltaf sagt og segi það enn einu sinni: “allir eru að selja.” Og ég meina allir.
Það skiptir ekki máli við hvað þú starfar eða á hvaða aldri þú ert, einni munurinn er sá að fólk hefur mis mikla hæfileika til að sannfæra og það beitir mismunandi aðferðum. Það er enginn ‘fæddur sölumaður’ þó að hæfni í mannlegum samskiptum sé auðvitað mjög stór kostur þar sem sölumennska gengur jú út á mannleg samskipti.
En eins og áður hefur komið fram þá eru allir eru að selja. Hvort sem þú ert smiður að ráðleggja þínum viðskiptavini eða samstarfsaðila um hvernig best er að framkvæma hlutina eða foreldri að ala upp börnin þín, þjálfari í íþróttum eða kennari. Framkvæmdastjórar eða fólk í stjórnmálum eru að selja. Já, stjórnmálamenn eru í bullandi sölumennsku alla daga eins og aðrir og verð ég að segja að mér finnst stundum alveg ótrúlegt hvað þeir reyna að selja manni.
Það er mér með öllu óskiljanlegt hvað það virðist vera lítið mál að standa ekki við gefin loforð í þeim bransa og afhenda ekki það sem er búið að selja (lofa). Það er eitthvað sem myndi ekki ganga lengi í venjulegum viðskiptum og sölumennsku. Fólk myndi einfaldlega hætta að versla við viðkomandi fyrirtæki og ráðleggja öðrum að gera slíkt hið sama.
Hugsaðu um það næst þegar þú ræðir við maka, vin, samstarfsaðila eða hvern sem er hvað ert þú að reyna selja viðkomani. Eins skaltu veita því athygli hvað aðrir eru að selja þér. Ertu kannski ekki búin/n að kaupa það ennþá: “Allir eru að selja.”
Fyrir rúmlega 20 árum þegar ég sagði að lífið væri sölumennska út í eitt og allir væru að selja þá efuðust margir, en í dag átta flestir sig á því og eru sammála mér um að við séum bæði að selja okkur sjálfum og öðrum daglega. Við erum bara mis fær á því svið og þess vegna segi ég að vandað sölunámskeið komi öllum að gagni bæði í lífi og starfi.